Hótel Konsúlat í Hafnarstræti

Öll arkitektahönnun unnin af THG arkitektum.

Verkefnið er sambland af eldri byggingum og nýbyggingum sem taka mið af gamla bænum í formi og útliti.
Kolasundið gengur í gegnum móttökurými hótelsins á jarðhæð.

Dietlev Thomsen sem var með verslunarrekstur og ræðismannaskrifstofur í húsunum og er sú starfsemi innblástur í innanhús hönnun hótelsins.


 Fyrsta skóflustunga að nýrri Hrafnistu við Sléttuveg var tekin í síðustu viku. 

Um þessar mundir heldur Sjómannadagsráð upp á 80 ára afmæli sitt og 60 ára afmæli Hrafnistu.
Sjómannadagsráð hefur í gegnum árin helgað sig uppbyggingu heimila fyrir aldraða, í byrjun voru það öryggis- og kjaramál sjómanna en síðar var farið að huga að búsetuskilyrðum aldraðra sjómanna sem voru ömurleg fyrir 80 árum.
Það eru nú 60 ár síðan að fyrsta Hrafnistan opnaði í Laugarásnum. Heimilið sem að er verið að byrja á við Sléttuveg er það 7. Í röðinni af Hrafnistuheimilunum.
THG arkitektar og Halldór Guðmundsson hafa verið hluti af þessari uppbyggingu allt frá árinu 1974 er fyrstu afskipti Halldórs hófust með rýni á teikningum af nýrri Hrafnistu í Hafnarfirði.
Við á THG Arkitektum óskum Sjómannadagsráði og Hrafnistu til hamingju með þennan stórmerka áfanga og þökkum fyrir frábært samstarf í gegnum árin.


 Miðbærinn í Garðabæ. 

THG arkitektar hafa unnið að breytingum í miðbæ Garðabæjar síðustu 10 ár.

Nú fer að sjá fyrir endann á þessari vinnu og hafa íbúðar og verslunarhús risið þar undanfarin ár.

Hugmyndin er að skapa miðbæjartorg fyrir aðkomu að verslunum og bílastæðum sem getur svo nýst sem viðburðartorg fyrir tónleika og ýmiskonar uppákomur.

Nú þegar er flutt inn í íbúðir við Garðatorg 2 og 4 og er Garðatorg 6 að klárast á næstu misserum. Bjarg íbúðafélag - Skarðshlíð. 

Almenna íbúðafélagið boðaði til gerðar samanburðartillagna, meðal nokkurra arkitektastofa, á uppbyggingu leiguíbúða við Skarðshlíð í Hafnarfirði. Niðurstaðan var sú að tillaga THG arkitekta var valin til útfærslu. Tillagan gerir ráð fyrir 42 íbúðum í 6 púnkthúsum.
Leiðarljós tillögunnar var að skapa góða, hagkvæma og örugga ramma fyrir einstaklinga og fjölskyldur framtíðarinnar. Í hverju íbúðarhúsi verður vetrargarður sem að geymir stigahús og lyftu og gegnir því hlutverki að sameina íbúa hússins.
Hér er t.d hægt að rækta grænmeti, ávexti og kryddjurtir. Frá vetrargarðinum er gengið inn í íbúðirnar. Frá eldhúsum íbúðanna verður gluggi svo hægt sé að fylgjast með því lífi sem að skapast í vetrargarðinum. Inni í sjálfum íbúðunum er hver fermeter nýttur til hins ýtrasta og gegna rennihurðar lykilhlutverki í nýtingu rýmisins innan íbúðanna.
Íbúðirnar sem eru 1-,2-,3-,4- og 5 herbergja verða 30-, 40- ,70- ,85- og 100 m². Allar íbúðir hafa eigin svalir.
Markmið félagsins er að bjóða upp á ódýrt leiguhúsnæði fyrir tekjulágar fjölskyldur og einstaklinga á grundvelli laga um almennar íbúðir.

 Icelandair - Flugskýli. 

Búið er að taka fyrstu skóflustunguna af nýju flugskýli Icelandair á Keflavíkur flugvelli. Flugskýlið sem verður 10.500 m2 er byggt við hlið eldra skýlis og verður stækkun á núverandi viðhaldsaðstöðu Icelandair. Við hönnun skýlisins verður horft til umhverfisþátta í efnisvali og mikið lagt upp úr góðri vinnuaðstöðu starfsfólks en reiknað er með að um 300-400 manns vinni í þessum flugskýlum. Áformað er að framkvæmdum ljúki síðla árs 2017.
THG Arkitektar sjá um arkitektahönnun hússins. THG Arkitektar - ISO 9001 Vottað gæðastjórnunarkerfi. 

THG Arkitektar ehf. hafa fengið staðfestingu Votturnar hf á að fyrirtækið starfræki gæðastjórnunarkerfi sem samræmist kröfum í ÍST EN ISO 9001:2008.
 Stækkun á endurhæfingarmiðstöð SÁÁ - Vík á Kjalarnesi.

Í dag var skrifað undir hönnunarsamning við SÁÁ um gerð arkitektateikninga af stækkun endurhæfingarmiðstöðvar félagsins á Kjalarnesi.

Húsið stækkar um samtals 2.730 m² og verður eftir stækkun samtals 3.580 m².

Eftir stækkun verður rými fyrir 60 sjúklinga og er áætlað að framkvæmdir hefjist í sumar.


 THG hannar vinningstillögu fyrir Arion banka. 

Tillaga fyrir Arion banki hlaut hæstu einkunn í samkeppninni um rekstur fjármálaþjónustu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Tillagan gerir ráð fyrir nýju og opnu útibúi í farþegasal ásamt annari fjármálaþjónustu víða um flugstöðina.

 Framkvæmdir við Bíóganginn í Kringlunni að klárast. 

Nú eru að ljúka framkvæmdum á 3. Hæð Kringlunnar sem nú heitir Bíógangur.

Þar er lögð áhersla á ferska strauma í hönnun til að skapa þessum hluta verslunarmiðstöðvarinnar sérstöðu.
Verslunum á ganginum er fjölgað og er miðsala bíósins færð og endurbætt.
THG arkitektar sjá um alla hönnun, verkumsjón og eftirlit. 
 
Við leitum að 
sprækum
 arkitektum. 

Vegna fjölda spennandi verkefna framundan óska THG arkitektar eftir að ráða hugmyndaríka arkitekta.


Umsækjendur þurfa að geta unnið sjálfstætt og í samvinnu við aðra og hafa metnað til að takast á við krefjandi verkefni. Jákvætt viðmót, þjónustulund og hæfni í mannlegum samskiptum eru mikilvægir eiginleikar og viðkomandi þarf að hafa reynslu af hönnunarvinnu og þrívíddarvinnslu.


Umsóknum fylgi náms- og starfsferilsskrá ásamt afriti af prófskírteinum.
Farið verður með umsóknir sem trúnaðarmál og öllum umsóknum svarað.


Umsóknir sendist fyrir 4. október á netfangið: ella@thg.is Hotel Borg. 

Í dag opnar nú stækkuð gestamóttaka (lobby) á Hótel Borg.

Gestamótakan er hönnuð í Art Deko stíl í samræmi við eldri móttöku.

Stækkun móttökunnar er 1. áfangi af stækkun hótelsins.

Samfara þessu opnar Borg endurgerðan veitingastað á 1.hæð hótelsins.


 Icelandair Reykjavík Marina hótel stækkar. 

Þessa dagana er verið að ljúka við að stækka hótel Marina við Mýrargötu.

Þá er gert ráð fyrir viðbyggingu við núverandi hótel með nýju kaffihúsi og fleiri almenningsrýmum í takti við eldri hlutann.

Einnig verða gömlu húsi við Mýrargötu 14-16 einnig notuð fyrir hótelrekstur þar sem svítur hótelsins verða staðsettar.

Gert er ráð fyrir að þessi stækkun opni haustið 2015

 Ármúli 9 – Klíníkin Ármúla. 

Í Ármúli 9, Broadway, fyrrum stærsta diskótek norðurlandanna, standa yfir miklar framkvæmdir, en þar verður opnuð læknamiðstöð og heilsulind, Klíníkin, á næstu misserum.

Á 1. hæð verða móttökur og viðtalsherberbergi lækna, en á jarðhæðinni fullbúin skurðstofueining með fullkomnasta búnaði sem völ er á fyrir þær aðgerðir sem fyrirhugað er að framkvæma þar. 

Samhliða læknamiðstöðinni verður rekin sjúkraþjálfun og endurhæfing sem er sérsniðin að þeim sjúklingahópum sem njóta þjónustu miðstöðvarinnar.


 Gerðuberg – Menningarmiðstöð. 

Miklar breytingar hafa staðið yfir á anddyri Gerðubergs og er framkvæmdum nýlokið.

Ákveðið var að gjörbreyta ásýnd forsalar á 1. hæð, færa til eldhús og opna hæðina betur þannig að starfsemin tengdist betur og sýnileiki á milli bókasafns og kaffiteríu yrði meiri.

Loftum og lýsingu var breytt og hæðin endurmáluð.
 Framúrskarandi fyrirtæki. 

Creditinfo staðfestir hér með að THG Arkitektar ehf.
er í hópi framúrskarandi fyrirtækja á Íslandi árið 2014.

Af tæplega 34.000 skráðum fyrirtækjum á Íslandi uppfylla 577 skilyrði Creditinfo um styrk og stöðugleika.

Til þess að eiga kost á viðurkenningunni þurfa fyrirtækin að uppfylla strangt gæðamat byggt á faglegum kröfum og greiningu Creditinfo. ISAVIA - Flugstjórnarmiðstöðin - Reykjavík. 

Nú er í byggingu stækkun á Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík. Í nýbyggingunni verða aðallega skrifstofur ásamt kennslu- og starfsmannaðsöðu.

Stærð viðbyggingarinnar er u.þ.b. 2.800 m² og áætluð verklok eru í lok árs 2015.

THG sá um arkitektahönnun og hönnunarstjórn.

 Brautarholt - Reykjavík. 

Tillaga THG Arkitekta hlaut 1.sæti í alútboði um byggingu Stúdentagarða við Brautarholt í Reykjavík fyrir Félagsstofnun stúdenta. Samstarfsaðilar THG Arkitekta voru Jáverk, Efla, Verkfræðistofa Þráinn og Benedikt, Landform  og  TERA. Flugstjórnarmiðstöðin - Reykjavík. 

Nýverið tóku Innanríkisráðaherra og Borgarstjórinn í Reykjavík fyrstu skóflustungu að stækkun á Flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.

Stækkun er samtals 2.800 m² og áætluð verklok eru um áramótin 2015 -2016.

Í Flugstjórnarmiðstöðinni er stjórnað nánast öllu flugi yfir Norður Atlantshafi og þar munu starfa u.þ.b. 220 manns í sérhæfðum hátæknistörfum.
 THG arkitektar 20 ÁRA. 

 THG arkitektar með verkefni í Vilinius. 

Samið við THG Arkitekta og Isvia um forhönnun á flugstjórnarmiðstöð í Vilnius.

THG Arkitektar og Isavia hafa gert samning um forhönnun og ráðgjöf á nýrri flugstjórnarmiðstöð ásamt hóteli og íþróttahúsi í Vilnius. Vinna við verkefnið er þegar hafin í samstarfi við Baltic Engineers í Vilnius.

Um er að ræða fjórar sjálfstæðar byggingar alls um 8000 fermetra.
Hönnun á að  vera lokið í maí 2015 og munu framkvæmdir hæfjast í framhaldi af því.


 Þökkum sumarstarfmönnum fyrir samstarfið.  THG Arkitektar hljóta Umhverfisviðurkenningu Kópavogsbæjar 2014. 

Ár hvert veitir umhverfis – og samgöngunefnd Kópavogsbæjar umhverfisviðurkenningar í bænum. Einstaklingar, félagsamtök og fyrirtæki geta fengið viðurkenningar í ýmsum flokkum s.s. fyrir hönnun, umhirðu húss og lóðar, endurgerð húsnæðis, frágangur húss, lóðar á nýbyggingarsvæðum og framlag til umhverfis og samfélags.

THG arkitektar hlutu viðurkenningu í flokknum Hönnun fyrir Boðaþing 22-24. 

Þjónustu- og öryggisíbúðir. 
Húsið er byggt í hverfi sem skipulagt var af Sjómannadagsráði og verktakafyrirtækinu Húsvirki. Hugmyndin var sú að þarna skyldi rísa íbúðar- og þjónustuhverfi þar sem þarfir aldraðra væru í fyrirrúmi hvað varðaði skipulag og þjónustu.
Húsið stendur á tveimur lóðum en upphaflega var ráðgert að byggja þarna tvö sérstæð hús. Við nánari athugun og könnun á þeim möguleika að tengjast þjónustumiðstöðinni, var ákveðið að byggja eitt hús með einum tengigangi við þjónustumiðstöðina. Það gerir allt aðgengi milli bygginganna auðveldara.
Til að koma sem flestum íbúðum fyrir og hafa auðvelt aðgengi að íbúðunum, er miðlægur gangur sem gengur eftir húsinu endilöngu og eru íbúðir beggja vegna hans. Húsið liggur með hlíðinni og snúa íbúðirnar ýmist í norður, flestar með gott útsýni, eða í suður, upp í brekkuna og náttúruna.
Til að tryggja gott útsýni úr íbúðunum og jafnframt til að brjóta húsflötinn upp eru stofur og svalir hannaðar þannig að gott útsýni skapast úr stofu til a.m.k. tveggja átta og uppfyllir þannig kröfuna um að íbúðin snúi í fleiri en eina átt.
Íbúðirnar eru allar sérhannaðar með það í huga að hér sé um lífstíðaríbúð að ræða, þ.e. að þótt hreyfigeta íbúa skerðist, getur viðkomandi íbúi búið þar áfram. Þá er mikilvægt að auðvelt sé að veita þeim íbúum þjónustu, sem þess þurfa. Íbúðirnar eru allar með svölum og opinni eldhúsaðstöðu, góðu baði, stofu og annaðhvort eitt eða tvö svefnhebergi. Geymslur eru allar á jarðhæð.
Húsið er mjög langt og stórt í þessu umhverfi og það var mikil áskorun hvernig leysa mætti útlit þess, þannig að vel færi. Áður nefnd lausn varðandi útsýni úr íbúðum með uppbrotum á hliðum hússins er hluti af útlitshönnuninni. Auk þess er húsið er brotið upp í fjóra áberandi hluta og þá er litasamsetning hússins ekki síst þess valdandi að skapa fjölbreytileika í þennan stóra húskropp. THG vinnur nú að endurbótum og „Brand“ hönnun fyrir Capacent. 

Það er meira að segja sérhannað veggfóður við innganginn.
  


 Hugmyndasamkeppni Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar um heildarskipulag fyrir  svæði Háskóla Íslands í Vatnsmýrinni. 

THG arkitektar tóku þátt í hugmyndasamkeppni nú í vor með Þorgeiri Pálssyni fyrrverandi flugmálastjóra um skipulag á Háskólasvæðinu og Vatnsmýrinni.

Ekki þurfti endilega að koma með heildarlausnir heldur mátti senda inn einstakar hugmyndir.

Send var inn hugmynd að flugsafni sem yrði byggt eða komið fyrir í einhverjum af húsum Fluggarða.

Hugmyndin þótti eftirtektarverð og hlaut innkaup.  
 Reykjavík Hótel Marina stækkar 

Nú hefur hafist framkvæmd við stækkun Marina hótels.

Gert er ráð fyrir stækkun til vesturs með viðbyggingu við núverandi hótel og tengingu við tvö eldri hús á reitnum.

Almenningsrými verður áfram á 1. Hæð með viðbótar sölum og þjónusturými fyrir ferðamenn og aðra gesti Marina.
Lagt verður uppúr fjölbreytni í herbergjum þar sem í viðbyggingu verða lúxusherbergi en í eldri húsunum svítur og önnur gistirými í gamla stílnum.


 Borgir - Félagsmiðstöð - Reykjavík 

Á laugardaginn var, 17. maí, var félagsmiðstöðin í Spöng vígð formlega.

Húsið er 1400 m² að stærð á tveimur hæðum og er tengd Eirborgum með tengigangi.
Velferðarsvið Reykjavíkurborgar verður með þjónustu í húsinu.

Korpúlfar, félag eldriborgara, verða einnig með aðstöðu í húsinu fyrir félags- og tómstundarstarf.

Grafarvogssókn verður með kirkjusel í húsinu og áætlað er að hjúkrunarheimilið Eir reki þarna dagvistun fyrir heilabilaða.

Arkitektar hússins eru THG arkitektar.


 Samkeppni um Vogabyggð – Tillaga THG arkitekta 

Verkefnið fjallar um umbreytingu iðnaðarhverfis í íbúða-og atvinnuhverfis og hvernig fortíð og nútíð fléttast saman í heilsteypta nútímalega borgarmynd, sem endurspeglar borgarmenningu samtímans og samrýmist skipulagsstefnu Borgarinnar. Markmiðið er að tengja Vogahverfið  aftur við sjávarsíðuna og skapa þétta og lifandi byggð þar sem ímynd og saga hverfisins, sem iðnaðarsvæðis, er varðveitt. Þar verður lögð áhersla á umhverfisvænan ferðamáta og græn svæði/tengingar sem stuðla að heilbrigðu líferni, bæði andlegu og líkamlegu. Áhersla er lögð á sterka tengingu við smábátahöfnina sem almenningsrými og á Háubakka og mikilvægi þeirra í jarðsögulegu tilliti.
Í tillögugerðinni vinnum við  með 4 stefnur:

1. Byggðarstefnu - skipulag bygginga
2. Græna stefnu - garðar og útivistarsvæði
3. Bláa stefnu - svæðin við vatnið og meðferð regnvatns
4. Gráa stefnu - vegir, stígar og aðrar tengingar

Teymi:
Magnús Freyr Gíslason arkitekt  MAA - Emma Hildur Helgadóttir arkitekt MAA - Halldór Guðmundsson arkitekt FAÍ, MAA - Freyr Frostason arkitekt FAÍ - Ragnar Auðunn Birgisson arkitekt FAÍ - Oddur Kr. Finnbjarnarson arkitekt FAÍ  Nýr miðbær í Garðabæ – Garðatorg 4 - Garðabæ 

Nú þegar er hafin bygging í miðbænum í Garðabæ við Garðatorg.

THG hefur verið með skipulag og hönnun á verkefninu og er nú verið að klára hönnun á íbúðarhúsum.

Gert er ráð fyrir að bílastæðahús og torg opni á vormánuðum en íbúðir verða fullkláraðar með haustinu. 

 Íslenska Auglýsingastofan - Reykjavík 

Íslenska Auglýsingastofan - móttökurými og fundarherbergi. Öll hönnun og verkumsjón var í höndum THG arkitekta.

Mikið er lagt uppúr litríku og áhugaverðu umhverfi þar sem viðskiptavinurinn og starfsmenn upplifa draumkennda stemmningu í gullfallegu húsi.

Tilvísanir í klassíska hönnun í bland við grafík var megin hugmynd hönnuða. Innréttingar og húsbúnaður sérhannaður af THG arkitektum og Nogi húsgögn.
 Hafnarstræti 

Nýtt deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir Hafnarstrætisreit og var hönnun og útfærsla þess unnin af THG arkitektum.

Hugmyndin er að blanda nýbyggingum við eldri byggð þannig að götumynd Hafnarstætis haldist óbreytt, en núverandi hús þar eru vernduð.
Þriggja til fjögurra hæða byggingar verða við Tryggvagötu með tilvísun í íslenska steinsteypuklassík og gert ráð fyrir verslun og þjónustu á jarðhæð með möguleika á gistirýmum á efri hæðum. 

Tengt þessum framkvæmdum er nýtt miðbæjartorg við Pylsuvagninn, með setsvæðum og gróðri.


 Garðabær Miðbær 

Nú þegar hafa framkvæmdir hafist að stækkun miðbæjar í Garðabæ. Í fyrsta áfanga er bílakjallari með miðbæjartorgi og í framhaldi verða byggðar verslanir og íbúðarhús.

Meginhugmyndin gerir ráð fyrir þriggja til átta hæða byggingum sem umlykja líflegt bæjartorg sem ætlað er að verða vettvangur margvíslegra atburða í bæjarlífinu.  Á horni Vífilsstaðavegar og Bæjarbrautar verður íbúðarhús með verslun og þjónustu á jarðhæð.  Á lóð samhliða Bæjarbrautinni verður fjölbýlishús þar sem eingöngu verða íbúðir en alls er gert ráð fyrir 88 nýjum íbúðum við Garðatorgið.

Það er fyrirtækið Klasi sem stýrir verkefninu samkvæmt samningi við Garðabæ.  Verktakafyrirtækið ÞG Verktakar sjá um framkvæmd á fyrsta áfanga verksins, þ.e. bílakjallara.
 Breytingar í Kringlunni 

Kringlan leggur áherslu á að vera í sífelldri þróun og endurnýjun. Hluti af þeirri vinnu er ný útfærsla á setusvæðum með nýjum húsgögnum.

Húsgagnaval og breytingar voru  unnar af THG arkitektum í samstarfi við Kringluna.


 Hamrar - Nýtt hjúkrunarheimili í Mosfellsbæ hannað af THG arkitektum 

Hjúkrunarheimilið var vígt þann 27. júní 2013. Húsið er á tveimur hæðum með 30 einstaklingsíbúðir fyrir aldraða og er 2.250 m² að stærð og skiptist í þrjár íbúðareiningar sem eru með heimilislegu yfirbragði. Íbúðirnar snúa ýmist í austur eða vestur þannig að það er gott útsýni úr þeim.

Á fyrstu hæð eru átta íbúðir ætlaðar einstaklingum með heilabilun sem er með sér aflokuðum garði og til viðbótar eru tvær íbúðir sem eru ætlaðar fyrir hvíldarinnlagnir. Á annarri hæð eru tvær einingar með 10 íbúðum. Íbúðirnar eru rúmgóðar og eru með sér baðherbergi og eldhúskróki.

Hver íbúðareining er með sameiginlegri borð- og setustofa þar sem einnig er gert ráð fyrir að íbúar geti föndrað, hlustað á upplestur og spilað saman. Í miðkjarna hússins er aðalinngangur, aðstaða fyrir starfsfólk og sjúkrabað. 

Hjúkrunarheimilið tengist beint endurnýjaðri þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara sem tekin var í notkun í vor og einnig öryggisíbúðum sem eru austan við hjúkrunarheimilið.
Húsið er staðsteypt einangrað að utan og klætt með flísum og áli. Nýjar höfuðstöðvar fyrir Valitor við Dalshraun 3 

THG er nú að hanna nýjar höfuðstöðvar fyrir Valitor og er gert ráð fyrir að fyrirtækið flytji í nýtt húsnæði með næst komandi haust.

Valitor er um 150 manna vinnustaður og verður gert ráð fyrir opnum vinnurýmum sem umlykja torg á öllum hæðum. Hugmyndin að er skapa opið og líflegt vinnuumhverfi með hlýlegu viðmóti fyrir gesti Valitors.


 Opnun Eirhamra, þjónustumiðstöðvar við Hlaðhamra 2, Mosfellsbæ  18. apríl 2013 

Þjónustumiðstöðin er á 1. hæð hússins að Hlaðhömrum 2 og var verkefnið fólgið í innanhússbreytingum á eldra húsi. 
5  íbúðum sem áður voru á hæðinni var breytt í dagvistarrými, föndurrými, skrifstofur, hárgreiðslu og fótsnyrtingu. Auk þess var borðsalur stækkaður til muna og endurbættur.  Borðsalurinn rúmar nú eftir breytingu um 68 manns í sæti og mun áfram nýtast íbúum hússins og tengdra húsa auk gestum þjónustumiðstöðvar og dagvistunar. 
Öll gólf- og loftefni  voru endurnýjuð, ásamt því að setja upp nýja innveggi, glerveggi, hurðir og fastar innréttingar. Einnig voru hreinlætistæki endurnýjuð og húsnæðið málað í ljósum litum.
Lögð var áhersla á að birta og opna rýmið m.a. með endurbótum á lofti og lýsingu, ásamt því að gera það notadrjúgt og aðlaðandi fyrir notendur. Miðað var við að allt efni og frágangur yrði vandað og hljóðvist góð.
Rýmið sem breytt var er alls 649m2, og samnýtir núverandi inngang og anddyri með íbúðarhúsinu Eirhömrum sem THG Arkitektar hönnuðu 2005. 
Starfsmenn nýs hjúkrunarheimilis, sem samtengt er Eirhömrum, munu hafa aðstöðu í nýju þjónustumiðstöðinni. THG Arkitektar eru einnig hönnuðir að hjúkrunarheimilinu sem áætlað er að opni í sumar.
 Ísafold nýtt hjúkrnarheimili og þjónustumiðstöð í Garðabæ 

Í húsnæði Ísafoldar sem vígt var sl föstudag er hjúkrunarheimili fyrir 60 heimilismenn í sex litlum einingum með heimilislegu yfirbragði og hlýleika. Í hverri einingu eru 10 einstaklingsherbergi með sér baði og eldhúsi. Hverri einingu fylgir sameiginlegt eldhús ásamt borð- og setustofu. Í tilvikum hjóna er möguleiki að opna milli herbergja. Á fyrstu hæð Ísafoldar er þjónustumiðstöð fyrir eldri bogara þar sem verður m.a. iðjuþjálfun, dagdvöl fyrir 20 manns, eldhús, matstofa, hárgreiðsla, fótaðgerðastofa, hreyfisalur, aðstaða heimaþjónustu Garðabæjar og sjúkraþjálfun. Í byrjun mars var opnað bakarí (Okkar bakarí) í húsnæðinu sem er kærkomin þjónusta við við heimilismenn og íbúa á Sjálandi. Við hönnun á húsnæði Ísafoldar var horft mjög til þess að mynda skjólgóðan garð fyrir heimilsmenn, gesti og aðra er sækja þjónustu í húsnæðinu. Húsið er því hannað sem U-laga bygging sem myndar skjólríkan garð í suðurátt, með svölum sem snúa inn í garðinn. Áætlaður heildarbyggingarkostnaður hússins var áætlaður um 2.040 m.kr en gert er ráð fyrir að raunkostnaður verði töluvert lægri eða 80% af áætluðum byggingarkostnaði. THG Arkitektar eru arkitektar hússins og sáu um verkefnastjórnun á framkvæmdinni. Stækkun Hótel Borgar 

Skipulagsráð samþykkti í vikunni að byggð yrði álma við Hótel Borg.

Við það stækkar hótelið um 43 herbergi auk stækkunar á kjallara og 1.hæð.

Stækkunin tekur mið að næsta umhverfi og mun álman gjörbreyta ásýnd göngugötu og torgs sem er aftan við hótelið til hins betra.

Mikill metnaður verður lagður í stækkun hótelsins eins og gert var við endurbyggingu þess fyrir nokkrum árum. Ný verslun Advania opnar við Sætún 10. THG sá um arkitektahönnun 

Advania HOME:
Hugmyndafræðin er að skapa heimili fyrir Advania. Móttökusvæði, sýningarsal, verslun og kaffihús sem blandar saman gestum og starfsmönnum og þægilegan máta þar sem fyrirtækjamenning Advania skapar sérstaka upplifun í rýminu.

Þessi vettvangur er andlit Advania þar sem gestir geta upplifað sérstöðu fyrirtækisins og rætt við ráðgjafa og aðra um lausnir og vörur sem boðið er uppá, þess vegna er þetta ekki hefðbundin verslun. Rýminu er skipt upp í svæði sem hvert hefur sýna upplifun, litir, efnisval og búnaður skapar hverju svæði sérstöðu. Svæðin eru tengdar vöruúrvali Advania eins og verslunartækni, lausnir fyrir fyrirtæki eða heimili og svo nýjustu vörurnar eða „Hot topic“.
Allt er þetta svo tengt saman með kaffihúsinu sem er einnig móttökurými sem teigir sig inn eftir rýminu og gefur tækifæri á að setjast niður í rólegheitunum með kaffibolla og ræða vörur og lausnir Advania.

Öll hönnun er gerð í þrívídd og svo hlutar skornir niður í tölvusög sem skapa innviði verslunar.


 THG Arkitektar hlutu 3. verðlaun í samkeppni um hjúkrunarheimili á Egilsstöðum 

Í  tillöguni er leitast við að skapa aðlaðandi, vistlegt og hagkvæmt heimili fyrir eldri borgara sveitarfélagsins. Lögð hefur verið áhersla á að byggingin fari vel í landinu og leitast við að íbúar og starfsmenn njóti útsýnis og nægrar dagsbirtu.
Markmiðið er að skapa heimilislegar einingar þar sem hver íbúi er með sitt einkarými  og þar að auki er sameiginleg setu- og borðstofa þar sem einnig er mögulegt að koma saman til daglegrar þjálfunar og samvista.
Byggingin er á þremur hæðum sem stallast upp eftir hlíðinni. Við það skapast möguleiki á að koma fyrir rúmgóðum þaksvölum í vesturenda eininganna. Aðkoma er frá Blómvangi, aðalinngangur er fyrir miðju hússins og út frá honum eru einingarnar að sunnan og norðanverðu. Í öllum einingum er inngarður sem veitir dagsbirtu og loft inn í bygginguna. Borð- og setustofa er miðlæg og staðsett þannig að hið stórbrotna útsýni til fljóts og fjalla fær að njóta sín sem best.
Á  flötu þaki verður úthagatorf. Húsið verður steinsteypt og steyptum veggjum á milli herbergja  verður haldið í lámarki til að hafa möguleika á því að gera breytingar á herbergjaskipan þegar fram líða stundir. Icelandair Hótel Reykjavík Marina 

Icelandair Hótel Reykjavík Marina er 108 herbergja hótel með kokkteilbar, kaffihúsi, bíósal og líkamsræktaraðstöðu.
Húsið er til húsa að Mýrargötu 2-8 en framkvæmdir við hótelið hófust fyrir ári.
Hótelið er án efa það eina í heiminum þar sem hægt verður nánast að snerta skip í slipp, en aðalinngangurinn er gegnt Slippnum norðanmegin við húsið.
Hönnun hótelsins er nýstárleg og litrík, en bæði húsgögn og innréttingar eru sérsmíðaðar á Íslandi. Húsið á Mýrargötu 2-8 hefur hýst afar fjölbreytta starfsemi í gegnum tíðina, og var sá fjölbreytileiki hafður að leiðarljósi við byggingu hótelsins, þar sem nútímahönnun blandast eldri munum úr nærumhverfi Slippsins. Nátturuperlan 

Tillagan miðar við að byggja við núverandi hús Perlunnar lágreist hús á einni hæð sem verða að hluta til neðanjarðar. Samkvæmt tillögunni mun núverandi hús Perlunnar nýtast sem aðkoma að heilsulind og náttúrugripasafni. Veitingaaðstaða mun einnig vera áfram á efri hæðum núverandi húss ásamt aðstöðu fyrir þjónustu og verslun fyrir ferðamenn á 1. Hæð.
Tillagan gerir ráð fyrir að byggð verði nýbygging norðan megin við núverandi byggingu sem er að hluta til neðanjarðar og hýsir náttúrugripasafn Íslands og aðra tengda safnastarfsemi, sem tengist íslenskri náttúru. Einnig gerir tillagan ráð fyrir að byggð verði nýbygging undir heilsulind vestan megin við núverandi byggingu í tengslum við útilaugar sem umlykja núverandi byggingar. Við gerð tillögunar hefur verið leitast við að aðlaga nýbyggingarnar sem mest að landi til að breyta sem minnst yfirbragði núverandi byggingar. Nýbygging undir náttúrugripasafn er 3.500 m² að stærð og leitast hefur verið við að hafa  sýningarsali bjarta með útsýni til norðurs yfir borg og sund með fjallasýn. Safnið sem er á einni hæð fylgir legu lands á pöllum niður með hlíðinni. Auk þess er gert ráð fyrir mögulegu viðbótarrými við starfsemina innan núverandi húss Perlunnar, með gerð þriggja nýrra millilofta alls 1.500 m² að stærð. Innangengt verður milli núverandi húss Perlunnar og nýbyggingar neðanjarðar. Nýbygging undir heilsulind sem er á einni hæð er um 1.500 m² að stærð og er innangengt frá henni inn í núverandi byggingu Perlunnar um gang neðanjarðar. Nýbyggingin er formuð inn í landið í tengslum við útilaugar á vesturhluta lóðarinnar og er lögð áhersla á að byggingin falli vel að landi.  Lögð er áhersla á að vanda vel til alls frágangs og efnisvals við gerð vistgarða, sem umlykja allar byggingar á lóðinni og tengjast þaki nýbygginga, þannig að fram náist vistlegt heildaryfirbragð með samspili náttúru og byggðra mannvirkja.


Facebook ImageVogar

Garðatorg 4